Samfélagssáttmáli

Menntastefna Akureyrarbæjar er samfélagssáttmáli um skólastarf, áherslur og starfshætti, ekki síst hvernig starfshættir skólanna þurfa að þróast í takt við þær hröðu og miklu samfélagsbreytingar sem eiga sér stað þessi árin. Sátt þarf að vera um að starfsfólk skólanna taki nauðsynlegar ákvarðanir í daglegu skólastarfi sem hafa mótandi og farsæl áhrif á velferð og framfarir barna.

Fyrirséð er að starfshættir skóla þarfnast endurskoðunar í ljósi þess að áherslur skólastarfs eru í ríkara mæli en áður á nýtingu þekkingar og tækni, vinnu með öðrum, sköpun og lausnamiðun og gagnrýna hugsun. Aldrei hefur mikilvægi þess verið meira en nú að börn tileinki sér grundvallardyggðir og viðurkennd samfélagsgildi.
Til að svo megi verða þarf skólastarf Akureyrarbæjar að vera framsækið þar sem tekið er mið af rannsóknum í menntun, bæði innlendum sem erlendum.

Bæði skólar og foreldrar verða að taka höndum saman um að vinna að velferð og framförum barna og eiga um það opinskátt og heiðarlegt samtal hvaða stuðning börn þarfnast.

Menntastefna Akureyrarbæjar hvetur menntastofnanir til þess að vera framsæknar, mæta þörfum barna og leggja megináherslu á gæði við skipulag leiks, náms og kennslu.

Að áhrif stefnunnar verði til þess að fjölskyldur finni að verið sé að taka ákvarðanir út frá þörfum barnanna og að starfshættir séu í samræmi við þroska þeirra, áhuga, hæfileika og sköpunargleði.