Við framkvæmd og innleiðingu menntastefnu Akureyrarbæjar liggja þrír þættir til grundvallar:

1. Framúrskarandi starfshættir

2. Leikur, nám og kennsla

2. Stjórnun og fagleg forysta

Við innleiðingu stefnunnar skulu allar aðgerðar vera kerfisbundnar, tímasettar og metanlegar.

Framúrskarandi starfshættir

Framúrskarandi starfshættir byggja á sameiginlegri sýn og gildum auk gæðaviðmiða um áreiðanlega starfshætti sem hver skóli setur sér. Þeir lýsa sér í stöðugum umbótum og starfsþróun sem tekur mið af stöðu nemenda, velferð þeirra og framförum. Fjölbreytt gögn um stöðu barna eru markvisst notuð til að vakta framfarir.

Reglubundið innra og ytra mat á skólastarfi er framkvæmt í öllum skólum og brugðist við með úrbótum ef þurfa þykir.
Mat á starfsháttum, velferð og framförum skal vera óaðskiljanlegur þáttur í daglegu starfi skólanna og er ein af forsendum þess að skólastarf geti talist framúrskarandi.

Akureyrarbær hefur ríkan metnað til þess að í hverju skóla starfi hæft og öflugt fólk og að eftirsóknarvert sé að starfa þar. Stuðningur skólayfirvalda við starfsþróun leikur þar stórt hlutverk.

Leikur, nám og kennsla

Leikur, nám og kennsla eru þungamiðja skólastarfs. Starfshættir kennara taka mið af gæðaviðmiðum í skólum þar sem hæfniviðmið og hæfnimiðað námsmat er grunnur að öðru.
Læsi, samþætting námsgreina og sköpun eru í fyrirrúmi í námi barna. Umfram allt verða allir sem að menntun barna koma að hafa og sýna í verki óbilandi trú á að hvert barn geti tekið framförum og unnið að eigin velferð.

Brugðist er hratt við og viðeigandi úrlausnir fundnar svo koma megi sem fyrst til móts við ólíkar þarfir barna. Áhersla er lögð á að slík vinna miði ávallt að því að aðgreining verði sem minnst og stöðugt hugað að því að bæta almenna kennsluhætti og námsumhverfi. Öflugt samstarf skóla-, félags- og heilbrigðisþjónustu og annarra fagaðila sem koma að þjónustu við barnafjölskyldur er mikilvægt.

Áhersla er lögð á stafrænt læsi og nýtingu tækni, samþættingu námsgreina og heildstæða nálgun í námi barna. Vefmiðlar og upplýsingatækni eru nýtt með það að markmiði að hjálpa börnum til að verða virkir þegnar í alþjóðlegu samfélagi.

Leikur, nám og kennsla eru hæfnimiðuð, leiðsagnarnám er haft í fyrirrúmi og megináhersla er lögð á framfarir hvers og eins. Verkviti er gert hátt undir höfði til þess að börn nái í síauknum mæli að tengja saman hug og hönd í skapandi umhverfi.

Skólastjórnendur bera ábyrgð á skólastarfi og veita skólum faglega forystu. Stjórnendur bera meginábyrgð á því að menntastefna sveitarfélagins birtist í daglegu starfi.

Stjórnun og fagleg forysta

Stjórnun skóla einkennist af samvinnu, þátttöku, trausti og virðingu í samskiptum við alla aðila skólasamfélagsins. Stjórnun byggir á lýðræðislegu samstarfi við börn, fjölskyldur og starfsfólk. Starfsfólk á frumkvæði að samstarfi við heimili og vinnur að þróun leiða sem taka mið af ólíkum þörfum, menningu og reynslu barna og fjölskyldna þeirra.

Skólastarf hjá Akureyrarbæ ber merki öflugs lærdómssamfélags undir forystu skólastjóra.

Fagleg forysta stjórnenda styður markmiðs- og árangursmiðaða starfshætti sem drífa áfram stöðugar umbætur.

Skipulag skóla gerir ráð fyrir samvinnu starfsfólks, sveigjanleika í skipulagi, teymiskennslu og samþættingu námsgreina. Auk þess byggir skipulagið á fjölbreyttri samvinnu við börn þar sem hlustað er á raddir þeirra.

Reglubundið samstarf er á milli skólastiga og menntastofnana, sem og við aðrar stofnanir og fyrirtæki. Á sama tíma er öflugt samstarf við listamenn íþróttafélög og þá sem standa að menningarviðburðum, félagsmálum og félagsstarfi. Litið er svo á að allar þessar samfélagsstoðir myndi eina heild sem við köllum skólasamfélag.