„Með heiminn að fótum sér“

Það er hlutverk Akureyrarbæjar að vinna að velferð og framförum barna, tryggja þeim öruggt námsumhverfi og skapa góðar aðstæður fyrir skapandi og framsækið skólastarf. Allt skólastarf byggir á stefnu yfirvalda um menntun fyrir alla.

Kappsmál er að skólastarf hjá Akureyrarbæ sé framúrskarandi þar sem tekið er tillit til allra barna. Allir sem að menntun barna koma hafa tiltrú á að öll börn geti lært og tekið framförum. Fjölskyldur og skólasamfélagið sýna samstöðu í verki um að vönduð menntun sé lykill að góðu samfélagi.

Í skólum Akureyrarbæjar öðlast börn hæfni til að taka farsælar ákvarðanir um eigið líf. Til þess fá þau stuðning og hvatningu sem gerir þau hæfari til að lifa og starfa, hvort sem er í íslensku eða í alþjóðlegu samfélagi.

Með heiminn að fótum sér er leiðarstef menntastefnu Akureyrarbæjar í þeim skilningi að með samstilltu átaki verði grunnurinn lagður að því að börnum verði flestir vegir færir og að þau geti við lok grunnskólans valið sér leið í samræmi við áhuga og þarfir.

Skólasamfélagið vinnur að framtíðarsýn sveitarfélagsins með fyrirheitum um að:

  • Setja markið hátt og vinna saman að því að auka stöðugt gæði leiks, náms og kennslu.
  • Starfa af metnaði, ábyrgð og umhyggju.
  • Starfshættir í skólum Akureyrarbæjar verði öðrum fyrirmynd.
  • Koma fram við börn af virðingu og tiltrú og gera skýrar væntingar til þeirra.

Meginmarkmið stefnunnar er að börnum séu skapaðar aðstæður til að geta sem fullorðnir einstaklingar borið ábyrgð á eigin menntun, heilbrigði og velferð.

Grunnþættir menntunar eru leiðarljós í öllu skólastarfi. Þeir varða leiðina að því marki að börn verði sífellt færari um að bera ábyrgð á eigin heilbrigði og velferð, séu læs á umhverfi sitt, séu skapandi og beri virðingu fyrir jafnrétti, lýðræði og mannréttindum. Börn fá tækifæri til að reyna á eigin skinni hvernig þau geta mótað umhverfi sitt og haft áhrif á sjálfbærni í veröldinni allri.

 

Áherslur Barnasáttmála og heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna birtast með skýrum hætti í námi, leik og starfi enda skuli menntun beinast að því að rækta persónuþætti, hæfni og trú á eigin getu.

Frá fyrstu skrefum barna í leikskólum Akureyrarbæjar til loka grunnskólagöngu er grunnurinn lagður að hæfni þeirra til að bera ábyrgð á eigin námi, tjá og miðla, skapa og gagnrýna, sýna sjálfstæði en jafnframt færni til að vinna með öðrum. Þannig hafi menntastefnan skýra vísun í lykilhæfni aðalnámskrár.

Mikilvægt er að skólar Akureyrarbæjar í samvinnu við heimilin styðji börn í að takast á við viðfangsefni sín með bjartsýni og þrautseigju að vopni svo hvert og eitt þeirra taki framförum í hverju skrefi.