Það er hlutverk Akureyrarbæjar að vinna að velferð og framförum barna, tryggja þeim öruggt námsumhverfi og skapa góðar aðstæður fyrir skapandi og framsækið skólastarf. Allt skólastarf byggir á stefnu yfirvalda um menntun fyrir alla.
Í aðalnámskrá sem kom út árið 2011 varð umtalsverð stefnubreyting í menntun barna þar sem bæði nám og námsmat skyldi byggt á hæfniviðmiðum. Sveitarfélögum er ætlað að undirbúa börn fyrir líf og starf í breytilegum heimi þar sem vandasamt getur verið að spá fyrir um hvers konar samfélag eða aðstæður er verið að búa þau undir. Hröð tækniþróun undanfarinn áratug ræður þar mestu og birtist í samfélagsbreytingum sem lúta að börnum og þeirra umhverfi.
Af innlendum og erlendum úttektum má ráða að þau lög sem gilda í landinu um skólastarf og sú stefna sem birtist í aðalnámskrá mynda traustan grunn fyrir skólastarf. Viðfangsefni sveitarfélaganna er að veita stuðning við að innleiða áherslurnar og fylgja eftir með samstarfi, endurmenntun, starfsþróun og stuðningi.
Við mótun menntastefnu Akureyrarbæjar voru nemendur, kennarar, foreldrar, skólastjórnendur, sveitarstjórnarmenn, fulltrúar atvinnulífsins og sérfræðingar kallaðir til samráðs.
Í máli allra þessara aðila var áherslan á að hlusta bæri á raddir barna og koma til móts við einstaklingsbundnar þarfir þeirra. Öll börn skulu eiga kost á gæðastarfi og vönduðum starfsháttum í frístund, leikskólum, grunnskólum og tónlistarskóla sveitarfélagsins. Einnig kom fram mikilvægi þess að nemendur fái hvatningu og stuðning til að taka farsælar ákvarðanir um eigið líf og öðlast hæfni til að standa jafnfætis öðrum börnum í heiminum.
Með þeim hætti verði þau búin undir að lifa og starfa í samfélagi með víðtæk alþjóðleg tengsl með virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum sem og heiminum í kringum sig með sjálfbærni að leiðarljósi.
Úr rannsóknarsamfélaginu er lögð megináhersla á að skólasamfélagið sjái þann fjársjóð sem býr í því að mæta þörfum barna og hlusta á raddir þeirra. Tryggja þarf að nám og kennsla miði að því að nemendur verði færir til stunda frekara nám og þátttöku í samfélaginu. Um þetta ríkir einhugur. Kennarar og stjórnendur eru í lykilhlutverki við framkvæmd menntastefnunnar og er stuðningur skólayfirvalda í bænum við þau í starfi forsenda fyrir innleiðingu hennar.
Á haustmánuðum 2017 komu fulltrúar fræðslusviðs, Miðstöðvar skólaþróunar Háskólans á Akureyri og fræðsluráðs til fundar vegna vinnu við endurskoðun skólastefnu Akureyrarbæjar. Þá var hafin vinna við að afla gagna frá öllum aðilum skólasamfélagsins. Fræðslustjóri ásamt starfsfólki af fræðsluskrifstofu hittu fulltrúa nemenda, starfsfólks og foreldra úr öllum skólum og lögðu fyrir tvær meginspurningar:
og
2. Hvað er það sem betur má fara?
Skráð voru niður svör og tillögur sem MSHA vann úr. Starfshópur skipaður skólastjórum kom að vinnunni og að lokum hópur skipaður fulltrúum fræðsluráðs, skólastjóra leik-og grunnskóla og ungmennaráðs.